
Stefán Erik Stígsson Herlufsen hefur verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi eftir að hafa ráðist á vin sinn. Ein tönn vinarins brotnaði í árásinni.
Í dómnum sem var birtur nýlega á vefsíðu Héraðsdóms Reykjaness segir frá því að Stefán hafi verið staddur í íbúð fórnarlambsins, sem var vinur hans, ásamt einum öðrum en Stefán neitaði að hafa ráðist á vin sinn og sagðist hafa verið að verja sig frá árás brotaþola. Sagði hann brotaþola hafa ráðist á sig eftir að hafa sakað sig um að hafa stolið pípu. Hann hafi talið sig í lífshættu og reynt allt til að reyna koma sér úr aðstæðunum, sem tókst að lokum.
Brotaþoli sagði hins vegar að Stefán hefði stolið frá sér „graspípu“ sem var á heimili brotaþola og hann hafi í kjölfarið reynt að vísa Stefáni úr íbúð sinni. Stefán hafi hins vegar ekki tekið það í mál og ráðist á sig og kýlt ítrekað í andlitið. Tönn í munni hans hafi brotnað í árásinni.
Vitni, sem var vinur beggja, sem var statt í íbúðinni sagði hins vegar að brotaþoli hafi ráðist á Stefán af fyrrabragði og hann hafi í kjölfarið svarað fyrir sig.
Í niðurstöðu dómsins segir óumdeilt að brotaþoli hafði misst tönn í átökunum en lögreglan hafi ritað slíkt í skýrslu sína eftir að hún mætti á vettvang og var það vottað af tannlækni brotaþola. Þá hafi vitni staðfest að Stefán hafi kýlt brotaþola.
Ekki er hægt að fullyrða um að brotaþoli hafi ráðist á Stefán þar sem vitni nefndi slíkt ekki þegar það var yfirheyrt á vettvangi og þá hafi ákærði ekki lagt fram kæru fyrr en í skýrslutöku hjá lögreglu sem fór fram tæplega ári eftir atvikið.
Telur dómurinn því rétt að dæma Stefán í 30 daga fangelsi en dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára.
Komment