
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna ýmsum verkefnum í nótt og í gærkvöldi.
Lögreglu barst tilkynning um innbrot í heimahús í gær þegar tilkynnandi fann mann sofandi inni á heimili sínu. Hinn grunaði innbrotsþjófur var undir verulegum áhrifum fíkniefna og var vistaður í fangaklefa þar til hann telst skýrsluhæfur.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur gegn rauðu ljósi og bárust jafnframt nokkrar tilkynningar um ungmenni sem voru að vesenast með skotelda.
Ökumaður var handtekinn grunaður um ölvun við akstur og fyrir að hafa valdið umferðarslysi. Hann var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. Þá var annar ökumaður einnig handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur og fluttur á lögreglustöð í hefðbundið ferli.
Að auki voru skráningamerki fjarlægð af þremur bifreiðum, ýmist vegna skorts á vátryggingum eða vanrækslu á lögbundinni skoðun.

Komment