
Veitingamaðurinn Páll Ágúst Aðalheiðarson tilkynnti í gær á Facebook að matarvagn í hans eigu hafi verið stolið en um er að ræða vagn sem heitir Pop Up Pizza, sem er sérinnréttaður fyrir pítsugerð.
Páll óskaði eftir því að fólk hefði augun opin og setti sig í samband við sig ef það sæi vagninn. Síðar sama dag auglýsti Hafþór Rúnar Sigurðsson vagninn í Facebook-hópnum Brask og brall til sölu en Hafþór stofnaði Pop Up Pizza með Páli í desember árið 2022 og fjárfestu þeir svo í kjölfarið saman í Flatbökunni.

Mannlíf hafði samband við þá félaga til að fá nánari útskýringu á málinu.
„Þetta er mál sem er leyst,“ sagði Páll í samtali við Mannlíf. „Misskilningurinn var bara erjur sem eru búnar að standa yfir í eitt og hálft ár. Svo var hann látinn hverfa og menn voru ekki tilbúnir til að semja. Þannig að þetta er ekki stórt mál, ég þurfti að komast að því hvar hann væri niðurkominn.“
„Hvernig geturðu stolið því sem þú átt?“ spurði Hafþór á móti þegar blaðamaður ræddi við hann um hinn meinta stuldur. „Ég á þennan vagn, ég á hlut í félaginu og er prókúruhafi í því sem er skráð fyrir vagninum. Þannig að ég veit ekki hvernig ég get stolið úr félaginu ef ég er prókúruhafi. Þetta er bara ágreiningur innan félags sem er búinn að standa yfir í eitt og hálft ár.“
Hafþór tók undir með Páli að málið hafi verið leyst.

Komment