
Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segir að meiri óvissa ríki um fyrirvara næsta goss á Sundhnjúkagígaröðinni.
Gos gæti hafist hvenær sem er samkvæmt Freysteini en rýnt verður sérstaklega í nýjustu GPS mælingarnar síðar í dag.
„Það er meiri óvissa í þessari forspá núna um hvenær gýs næst og það er af því að breytingarnar eru hægari,“ sagði Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Segir hann að mælingar og ýmsar aðrar athuganir sé háðar meiri óvissu en í fyrri gosum á svæðinu en í dag verði nýjustu GPS mælingar sem bendi til landsigs, grandskoðaðar. Segir hann að ekkert bendi til annars en að það muni gjósa og það sé í raun komið að því. Erfitt sé þó að segja til um það hvenær nákvæmlega muni gjósa en að fyrirvarinn verði stuttur. Miðað við þróun fyrri gosa segir Freysteinn viðbúið að gosið verði stórt.
„Það er kannski auðveldara að segja til um hvenær eldgos er ólíklegt fyrst eftir umbrot með þessari aðferð og það var ólíklegt, sá tími hann er búinn.“
Komment