
Sænski dýraatferlisfræðingurinn Eva Bertilsson hefur verið við störf í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þessa vikuna en greint er frá þessu á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Hún hefur ferðast víða til þess að sinna kennslu og veita ráðgjöf um dýraþjálfun til fagfólks sem vinnur með dýr og hefur jafnframt sinnt fræðslu til almennings. Hún notast að sögn borgarinnar við jákvæðar þjálfunaraðferðir með það að leiðarljósi að auka lífsgæði dýranna.

Fyrstu þrjá dagana var Eva með námskeið fyrir starfsfólk garðsins og kenndi ýmsar leiðir til að þjálfa dýr og mun svo verða með námskeið fyrir almenning. Eva segir að þjálfun dýra komi að góðum notum fyrir þá sem vinna með dýr.
„Þjálfun dýra getur hjálpað starfsfólki að efla tengsl við dýrin og gert þeim kleift að þjálfa þau á jákvæðan hátt fyrir t.d. dýralæknaskoðanir og fleira.“
Komment