
Alls eru fimm vistaðir í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en 52 mál voru skráð frá 05:00 til 17:00. Hér má sjá nokkur brot af þeim verkefnum sem lögreglan sinnti.
Lögreglan á Hverfisgötu hafði afskipti af ölvuðum manni sem var með ónæði á almannafæri. Var honum gert að láta af háttsemi sinni og víðast í burtu. Annar maður var handtekinn fyrir ítrekað ónæði á almannafæri í miðborginni. Verður hann vistaður í fangageymslu þar til hægt er að tala við hann.
Þá var maður handtekinn eftir innbrot og þjófnað á bjórkútum í miðborginni en hann var vistaður í klefa þar til hann verður viðræðuhæfur.
Lögreglan sem annast útköll í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi, sinnti útkalli vegna umferðaslyss þar sem bifreið var ekið á hleðslustöð. Urðu minni háttar skemmdir en ökumaðurinn var kærður fyrir að aka án þess að hafa nokkru sinni öðlast ökuréttindi.
Lögreglan í Kópavogi og Breiðholti handtók þrennt en þau eru grunuð um margvísleg brot, þar með talið innbrot, þjófnaði, hilmingu og fleira. Voru þau vistuð í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Þá handtók lögreglan á Vínlandsleið ökumann vegna gruns um ölvunarakstur. Reyndist kauði einnig vera án gildra ökuréttinda og var fluttur á lögreglustöð í hefðbundið ferli. Var hann frjáls ferða sinna að sýnatöku lokinni.
Sama lögreglan annaðist útkall vegna umferðaslyss þar sem vörubíll og fólksbifreið áttu í hlut. Var fólksbifreiðin dregin af vettvangi á meðan sjúkralið hlúði að slösuðum. Er slysið í rannsókn.
Komment