
Félagið Ísland-Palestína krefst þess að íslensk stjórnvöld beiti sér af fullum krafti til að tryggja örugga og óhindraða för Frelsisflotans með neyðaraðstoð til Gaza.
Frelsisflotinn, þar á meðal skipið Conscience sem Margrét Kristín Blöndal siglir með, sigldi í kvöld inn á hættusvæði, þ.e. það svæði þar sem Ísrael tók 400 aðgerðasinna ólöglega til fanga fyrir örfáum dögum síðan og fangelsaði þá.
Áhöfn flotans samanstendur af heilbrigðisstarfsfólki, fréttafólki og friðarsinnum. Um borð eru einungis lífsnauðsynjar og lyf fyrir sveltandi fólk, en sérfræðingar telja að hundruð þúsunda palestínskra barna hafi farist úr sulti, auðlæknanlegum sjúkdómum og af öðrum óbeinum afleiðingum þjóðarmorðs Ísraelsríkis.
Frelsisflotinn, ásamt alþjóðlegri hreyfingu almennings sem styður við hann með mótmælum um allan heim, reynir nú að gera það sem stjórnvöld um allan hinn vestræna heim hafa kosið að gera ekki þrátt fyrir lagalegar og siðferðislegar skyldur sínar: að stöðva þjóðarmorðið í Palestínu.
Íslensk stjórnvöld verða að tryggja öryggi flotans og kalla eftir því að neyðaraðstoðinni sem er um borð í skipunum sé hleypt inn á svæðið. Félagið Ísland-Palestína krefst þess að utanríkisráðherra kalli eftir því opinberlega að Ísrael hindri ekki för flotans með ólögmætum hætti eins og gert hefur verið til þessa.
Komment