
Matvælastofnun varar neytendur með ofnæmi eða óþol við neyslu á tveimur asískum matvörum sem kunna að innihalda ofnæmisvalda án þess að það komi fram í merkingum. Um er að ræða pálmasykur og sósu sem fyrirtækið Dai Phat Trading Inc. ehf. flytur inn og selur í verslun sinni Dai Phat Asian Supermarket við Faxafen í Reykjavík.
Fyrri varan er pálmasykur frá merkinu Thai Dancer, með lotunúmerinu 301123 og best fyrir dagsetningu 30.11.2025. Í þeirri vöru fannst súlfít (brennisteinsdíoxíð) án þess að það væri merkt á umbúðirnar, sem getur verið hættulegt fólki með ofnæmi fyrir efninu.
Hin varan er Mang Thomas All Purpose Sauce Regular frá Filippseyjum, í 330 g pakkningum, með geymisluþol til 30.11.2025, 01.12.2025 og 01.02.2026. Hún inniheldur sojabaunir, en þær eru ekki tilgreindar í innihaldslýsingu. Sojabaunir eru algengur ofnæmisvaldur og getur neysla vörunnar verið hættuleg fólki með slíkt ofnæmi eða óþol.

Innköllunin er gerð í samráði við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, og Matvælastofnun fékk upplýsingar í gegnum RASFF hraðviðvörunarkerfi Evrópusambandsins.
Viðskiptavinum sem hafa keypt umræddar vörur er ráðlagt að neyta þeirra ekki heldur skila þeim í verslun Dai Phat gegn endurgreiðslu eða farga þeim. Nánari upplýsingar má fá í síma 765-2555.
Komment