
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörgu að snúast frá 17:00 í gær til 05:00 í morgun en hvorki fleiri né færri en 156 mál voru skráð í kerfum lögreglunnar á tímabilinu og eru allir fangaklefar fullir eftir nóttina, samkvæmt dagbók lögreglunnar. Hér koma nokkur dæmi.
Peruölvaður ökumaður olli umferðaróhappi í Síðumúla þar sem hann ók bifreið sinni á aðra bifreið en ökumaðurinn reyndist einnig án ökuréttinda og var vistaður í fangaklefa. Engin slys urðu á fólki.
Einstaklingur var handtekinn í miðborg Reykjavíkur vegna þjófnaðar en við nánari skoðun kom í ljós að hann var eftirlýstur og var vistaður í fangaklefa.
Þá ók ökumaður í annarlegu ástandi á umferðarljós og steyptar staur í Tryggvagötu, eins og Mannlíf sagði frá í gærkvöldi. Slasaðist ökumaðurinn og var fluttur á bráðamóttökuna.
Ölvaður ökumaður var handtekinn og vistaður í fangaklefa eftir eftirför þar sem hann er grunaður um hin ýmsu brot.
Tveir aðilar voru handteknir í miðborg Reykjavíkur vegna húsbrots. Lögreglan hefur haft ítrekuð afskipti af mönnunum en þeir voru vistaðir í fangaklefa.
Einnig hafði lögreglan afskipti af ungum einstakling sem var til mikilla vandræða í Laugardalnum. Ungmennið var í annarlegu ástandi, gaf upp rangt nafn, réðst að lögreglu og reyndi að hrækja á lögreglumenn. Var málið afgreitt með aðkomu foreldra.
Aukreitis barst lögreglu tilkynning um meðvitundarlausan aðila í miðborginni en hann lá utandyra. Við frekari athugum kom í ljós að um ofurölvun var að ræða og var viðkomandi fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabíl.
Sótölvaður ökumaður gerði sér lítið fyrir og velti bifreið sinni í Laugardalnum. Enginn slasaðist en maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Þá voru tveir aðilar handteknir eftir að þeir óku á lögreglubíl. Reyndu þeir að skipta um sæti til þess að villa um fyrir lögreglunni. Reyndust þeir undir áhrifum og voru látnir gista í fangaklefa.
Mígandi fullur aðili var vistaður í fangaklefa til þess að tryggja návist og öryggi en aðilinn gat sér litla sem enga björg sér veitt.
Hafnarfjarðarlögreglan handtók aðila eftir líkamsárás en var hann vistaður í fangaklefa. Þá barst sömu lögreglu tilkynning um innbrot í verslun í Hafnarfirði en þjófahyskið var farið af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.
Lögreglan í Kópavogi barst tilkynning um aðila utandyra sem var vopnaður sveðju en aðilinn fannst ekki þrátt fyrir leit.
Komment