
Fimm einstaklingar eru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina, samkvæmt dagbók lögrelgunnar. Alls eru 83 mál skráð í kerfi lögreglunnar frá klukkan 17:00 í gær til 05:00 í morgun. Hér má sjá nokkur dæmi.
Lögreglan sem hefur aðsetur í Hverfisgötunni kærði gúmmítöffara fyrir að reykspóla og fyrir að hafa skráningarmerki bifreiðar sinnar ekki greinileg.
Sama lögregla hafði afskipti af unglingapartýi en eitt ungmennið reyndist hafa rafmagnsvopn í fórum sínum. Var það flutt á lögreglustöð til skýrslutöku í samvinnu við forráðamenn og barnavernd.
Þá var útlendingur handtekinn grunaður um ólöglega dvöl í landinu. Neitaði hann að framvísa skilríkjum og sýna fram á lögmæti dvalar. Var hann vistaður í fangaklefa.
Lögreglan í miðborginni handtók mann sem grunaður er um ölvunarakstur. Kom í ljós að hann hafði verið sviptur ökuréttindum fyrir einmitt sama brot.
Lögreglan sem annast útköll í Kópavogi og Breiðholti var kölluð til vegna umferðaslys þar sem tvær bifreiðar voru óökufærar. Tvennt var flutt til aðhlynningar á slysadeild.
Lögreglan á Vínlandsleið kærði konu fyrir aka bíl svipt ökurétti. Sama lögregla handtók mann sem hún grunaði um brot á lögreglusamþykkt en maðurinn var með ofbeldistilburði á almannafæri. Var hann vistaður í fangaklefa þar sem hann var ekki í nokkru einasta ástandi til að vera meðal fólks.

Komment