Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri veitti í gær þremur rekstraraðilum sérstakar viðurkenningar fyrir fallegustu jólaskreytingarnar í miðborginni. Markmiðið er að hvetja verslanir og þjónustuaðila til að skapa hlýlega og hátíðlega stemningu á aðventunni.
Icemart á Skólavörðustíg 38 hlaut titilinn fallegasta jólaskreytingin. Að sögn dómnefndar er skreytingin bæði glæsileg og hlýleg og fellur vel að umhverfinu í hjarta borgarinnar.
Farmers and Friends á Laugavegi 37 var valin með fallegustu gluggaskreytinguna. Glugginn þykir grípa auga vegfarenda og setja sterkan svip á göngugötuna.
Café Babalú fékk viðurkenningu fyrir gleðilegasta barnagluggann. Skreytingin einkennist af litagleði og leikgleði, er í augnhæð barna og á að gleðja yngstu gestina sérstaklega.
Reykjavíkurborg segir að jólaskreytingar verslana skipti miklu máli fyrir notalegt borgarlíf yfir vetrarmánuðina og séu mikilvægur þáttur í að draga fólk í miðbæinn. Borgin óskar, í fréttatilkynningu, verðlaunahöfum til hamingju og þakkar öllum sem leggja sig fram við að fegra borgina á aðventunni.


Komment