
Landrisið við Svartsengi heldur áfram, en hraði þess hefur dregist verulega saman og er nú sambærilegur við það sem mældist fyrir eldgosið sem hófst 1. apríl.
Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands er kvikusöfnun enn í gangi undir Svartsengi og því áfram líkur á kvikuhlaupum og mögulegum eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni.
Veðurstofan fylgist náið með framvindu mála og metur stöðuna reglulega út frá nýjustu gögnum.
Jarðskjálftavirkni er enn til staðar við kvikuganginn sem myndaðist 1. apríl og voru að meðaltali skráðir um 100 skjálftar á dag síðustu viku. Langflestir þeirra voru minni en 1 að stærð, en sá stærsti mældist 1,7. Einnig mældist nokkur virkni við Fagradalsfjall um síðustu helgi.

Hægviðri undanfarna daga hefur gert jarðskjálftamælum kleift að nema mjög litla skjálfta sem annars myndu falla undir radarinn vegna veðurhávaða.
Hættumatskort Veðurstofunnar hefur verið uppfært og gildir það til 6. maí, að óbreyttu.
Komment