
Alþýðusamband Íslands vill að sett verði á viðskiptabann á Ísrael en samtökin grein frá því í tilkynningu um málið.
„Almenningur í Palestínu hefur mátt þola ólýsanlegar þjáningar í tengslum við ólögmætt árásar- og landvinningastríð Ísraela á Gaza, s.l. tæp tvö ár. Nú er svo komið að Ísraelsher hefur lokað fyrir alla neyðaraðstoð og matarflutninga inn á Gazasvæðið og heimurinn horfir upp á um tvær milljónir manna, þar af stórum hluta börn, sveltar hægt og bítandi til dauða. Í mars árið 2024 komst Alþjóðadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Ísraelsríki sé líklega (e. plausible) að fremja þjóðarmorð og í júlí á sama ári, úrskurðaði sami dómstóll að herseta Ísraela á palestínsku landi væri ólögleg,“ segir í yfirlýsingu ASÍ
Þá er tekið fram að miðstjórn ASÍ hafi þegar sent frá sér þrjár ályktanir í tengslum við átökin á sama tímabili þar sem óhæfuverk Ísraela hafa verið fordæmd og kallað hefur verið eftir raunverulegum aðgerðum af hálfu íslenskra stjórnvalda.
ASÍ bendir á að þann 9. maí hafi norska alþýðusambandið (LO) samþykkt ályktun um Palestínu á þingi sínu. Yfirlýsingunni svipar mjög til þeirra sem miðstjórn ASÍ hefur sent frá sér um sömu mál undanfarið en þar er meðal annars krafist sniðgöngu á Ísrael vegna hernaðaraðgerða landsins í Palestínu og krafa um lagasetningu sem banni viðskipti og fjárfestingar í Ísrael.
Miðstjórn ASÍ telur fulla ástæðu til þess að taka undir gagnrýni og kröfur LO í Noregi og gerir það með ályktun sinni.
Þá telur ASÍ að það sé full ástæða til þess að fordæma ákvörðun Ríkiskaupa um að endurnýja samninga við ísraelska greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd til tveggja ára, þrátt fyrir áberandi ákall frá stórum hluta almennings um hið gagnstæða.
„Lýsa má yfir ánægju með frumkvæði forsætisráðherra, Kristrúnar Frostadóttur, að leiða saman ríki sem taka vilja afstöðu gegn yfirstandandi herför Ísraela gegn mannúðinni, en gera þarf margfalt meira, og tafarlaust. Tíminn vinnur ekki með sveltandi börnum.
Alþýðusamband Íslands kallar eftir því að allar mögulegar leiðir verði reyndar til þess að binda enda á það martraðarástand sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og til þess að Palestínumenn megi njóta fullra mannréttinda og virðingar til jafns við aðra í heimalandi sínu.“
Komment