
Eins og fram kom í grein sem birt var þann 1. febrúar á nýliðnu ári ákvað Atli Þór, þriggja barna faðir í Grafarvoginum að gefa út tvær plötur í kjölfarið af greiningu sinni á óskurðtæku heilaæxli og flogaveiki sem hann fékk í kjölfarið á aðgerð. Við heyrðum í Atla Þór þann 9.júlí til þess að taka púlsinn á heilsunni og þessu risa verkefni sem hann ætlaði sér árið 2025, að gefa út tvær plötur og þá upplýsti hann að nafnið á fyrri plötunni yrði Heilakvel (með k) og var hún gefin út þann 24. ágúst.
Nú í byrjun árs 2026 liggur beinast við að spyrja, hvernig er heilsan og náðist markmiðið að gefa út tvær plötur á einu ári?
„Heilsan er þokkaleg miðað við aðstæður og er alltaf á leiðinni upp, smátt og smátt. Það eru ákveðnir hlutir sem ég á erfiðara með að sætta mig vita en aðra en það „tekur stundum mánuði, stundum mörg ár”, segir Atli Þór og vitnar þar í texta úr laginu Sökudólgur af fyrri plötu sinni, Heilakvel. Hann heldur áfram:
„Er búinn að fá flog í allskonar aðstæðum og er því miður að fá þau svona þrjú í mánuði en það bjargar miklu að fá þessa fyrirboða. Vitandi af aðdáandanum í höfðinu er líka alltaf smá ógnandi en þeim hugmyndum fækkar.“
Hvað varðar markmiðið segir Atli Þór það hafa tekist þar sem seinni platan hafi komið út annan í jólum.
„Já markmiðið slapp sem betur fer. Seinni platan kom út þann 26.desember og er ég gríðarlega sáttur með útkomuna á báðum plötunum. Samtals gaf ég út 13 ný lög árið 2025 og eitt stakt lag sem samið var 2006 þannig að í heildina gaf ég út 14 lög sem er sami fjöldi og hjá Laufey held ég en því miður eru mín lög á íslensku og þess vegna náði ég ekki sama flugi og hún,“ segir Atli Þór og hlær.
Hvernig voru viðbrögðin við fyrri plötunni, Heilakvel?
„Viðbrögðin voru í raun framar vonum. Ég fór í nokkur útvarpsviðtöl og nokkur lög rötuðu inn á einhverja Spotifylista. Það sem ég fæ helst að heyra er að textarnir séu einlægir og að fólk tengi mikið við þá í flestum lögum. Þegar fólk veit baksöguna þá rista textarnir aðeins dýpra. Ég hef einnig fengið skilaboð að utan um að textarnir séu flottir og að þetta verkefni hafi veitt viðkomandi innblástur í að gera eitthvað sem var alltaf á döfinni hjá þeim.“
Atli Þór hélt útgáfutónleika fyrir fullu húsi og salan á plötunni og varningi gekk mjög vel.
„Sem heild þá er þetta áhugaverð frásögn frá upphafi til enda að mati margra. Ég fékk Raven til vera heilaæxlið mitt í laginu Aðdáandi og KK setti munnhörpuhljóm á tvö lög. Ég var svo peppaður fyrir þessu að ég ákvað að halda útgáfutónleika á hverfisbarnum og var þar fullt hús af gömlum og góðum vinum. Einhverjir komu sennilega af vorkunn og einhverjir af ást en kannski einhverjir til að heyra lögin flutt í beinni. Ég gaf einnig út plötuna á Vínyl sem er ansi dýrt í litlu upplagi en það seldist sem betur fer upp. Einnig fór fram sala á bolum frá KH vinnufötum með textanum “Þú stýrir ekki vindinum en getur breytt seglunum”. Seldi ég um það bil 40 boli og ágóðinn rann til Krafts þannig að þetta gaf mér meira en ég hefði getað ímyndað mér í upphafi.“
Hvernig er seinni platan frábrugðin þeirri fyrri og hvernig hafa viðbrögðin verið við henni?
„Í stuttu máli get ég sagt að þetta sé sjálfstætt framhald af Heilakvel. Platan heitir Síðasta púslið og kápan á plötunni myndar síðasta púslið á kápunni á Heilakvel. Lögin eru fimm talsins og eru aðeins hrárri en lögin á fyrri plötunni en viðbrögðin við henni hafa líka verið góð. Hún er líka sett upp sem ákveðin tímalína þar sem í fyrstu tveimur lögunum er ég lifandi, í þriðja laginu er ég á mörkunum og í síðustu tveimur lögunum er ég farinn. Sandra Dögg Vignisdóttir fær þann vafasama heiður að gegna hlutverki floga í laginu Algrímur en Algrímur er í rauninni orðið Algrím sem er íslenska orðið yfir algorithm en það einkennir einmitt flogin mín að þau eru mjög handahófskennd og óútreiknanleg. Dóttir mín syngur á móti mér í lagi sem heitir Ef ég væri til þar sem ég er látinn að syngja til hennar en hún er í forsvari fyrir börnin mín og konu, og að lokum kemur eitt lag út með Júlí Heiðari þann 16. janúar. Ég er ekki búinn að ákveða hvort lagið verði stakt eða hluti af plötunni en það heitir 1 í einu og er í rauninni smá huggunarlag. Þannig að í þessu ferli bjó ég til tvö orð, Heilakvel og Algrímur og er ég gríðarlega stoltur af þessu öllu saman. Ég gekk meira að segja svo langt, fyrst ég var byrjaður, að óska eftir tilnefningu á plötu umslagi ársins. Já, þetta er semsagt í stuttu máli,“ segir Atli Þór hlæjandi.
Er þá tónlistarferlinum lokið þegar lagið með Júlí Heiðari kemur út?
„Enginn veit sína ævi fyrr en öll er þannig að ég hvorki játa né neita. Ég er kominn með nokkur önnur lög sem eru með svipuðu sniði, persónulegir textar sem tengjast þessu öllu á einhvern hátt en hvort þau verði kláruð og gefin út síðar kemur í ljós þegar líða fer á árið. Það er að minnsta kosti mjög skemmtilegt að búa til tónlist og hvað þá þegar það er í svona söguformi og að fá að vinna með færasta tónlistarfólki Íslands er líka ótrúlega skemmtilegt. Núna mun ég aðeins fylgja seinni plötunni eftir og laginu með Júlí Heiðari og ef vel gengur þá er ansi líklegt að einhver lög verði gefin út árið 2026. En það sem mér finnst skemmtilegast við þetta, fyrir utan að fá að knúsa Júlí Heiðar, er að geta gefið af mér, gefið öðrum innblástur, komið tilfinningum að einhverju leyti í orð og persónugera djöflana.“

Komment