
Alls sex hópar og samtök ungs fólks hlutu styrki til átta metnaðarfullra verkefna þegar úthlutað var úr loftslagssjóði ungs fólks í Höfða í gær en greint er frá þessu á vef Reykjavíkurborgar.
Borgin segir að verkefnin séu öll hönnuð og framkvæmd af ungu fólki með það að markmiði að takast á við loftslagsvána á fjölbreyttan og skapandi hátt. Sjóðurinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies og er heildarupphæð styrkjanna 5.520.000 krónur.
Markmið Loftslagssjóðsins er að virkja ungmenni til að leita lausna á loftslagsvandanum og styðja við frumkvæði þeirra sem miða að sjálfbærari framtíð. Skilyrði fyrir úthlutun eru að verkefnin séu hönnuð og framkvæmd af ungu fólki á aldrinum 15–24 ára og tengist loftslagsáætlun Reykjavíkur.
Verkefnin sem fengu styrk eru eftirfarandi:
Fjölbrautaskólinn við Ármúla – Saumað gegn sóun
Vitundarvakning um fatasóun með pop-up fataviðgerðarsmiðjum, fataskiptimarkaði, jafningjafræðslu og hönnunarkeppni þar sem nemendur umbreyta notuðum fatnaði.
Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík – Kolefnisbinding með þararæktun
Rannsóknarverkefni sem snýst um að finna bestu aðferðina og staðsetningu fyrir þararæktun á Íslandi með það að markmiði að binda kolefni og vernda sjávarvistkerfi.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi ásamt nemendum úr Ármúla og Menntaskólanum við Sund – Draumur um Jökul
Fræðsla um áhrif loftslagsbreytinga á jökla. Nemendur heimsækja jökul og framleiða stutt fræðslumyndband til miðlunar.
Félagsmiðstöðin Gleðibankinn – Stuttmyndahátíð um loftslagsmál
Unglingar úr þremur félagsmiðstöðvum búa til stuttmyndir um loftslagsmál sem sýndar verða á hátíð í kvikmyndahúsi.
Ungmennaráð Bandalags íslenskra skáta – Tré og tjútt í Esjuhlíðum
Viðburður þar sem tré eru gróðursett í Esjuhlíðum ásamt útilegu, fræðslu og gerð kynningarefnis um náttúru og gróðursetningu.
Ungir umhverfissinnar – þrjú verkefni:
- ÁLVER KÁLVER – Hakkaþon um orkulausnir og nýtingu raforku á sjálfbæran hátt.
- Be a good tourist – Fræðsluefni fyrir ferðamenn um sjálfbærari ferðalög og ábyrgð í náttúru Íslands.
- Fræðsla og tínsla unga fólksins á villtum jurtum – Fræðsla um jurtir í nærumhverfi Reykjavíkur til að efla tengsl við náttúruna og hvetja til sjálfbærrar neyslu.
Komment