Mikil umræða hefur skapast um nýtt listaverk í miðbæ Reykjavíkur en verkið stendur í Kolagötu á móti Arnarhóli.
Eins og sést á myndum myndar listaverkið tölustafina 101 og þykir það nokkuð viðeigandi miðað við staðsetningu þess.
Verkið er þó ekki á vegum Reykjavíkurborgar en samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum er það fasteignafélagið Heimar sem kom því fyrir. Heimar er eigandi verslunarrýma á jarðhæðum húsa á Hafnartorgi og hafa, samkvæmt upplýsingum frá borginni, fjárfest í götugögnum og listaverkum sem eru á staðnum í dag í samráði við Reykjavíkurborg.
Verkið er hannað af erlendum aðilum hjá MK Illumination í samstarfi við Garðlist og Heima. „Þetta eru sömu aðilar og hönnuðu jólaköttinn glæsilega,“ segir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkur, um málið.
„Verkið er hugsað til framtíðar, hugsunin er að setja það í mismunandi búninga eftir árstíma. Kostnaður er engin fyrir Reykjavíkurborg, kaup, viðhald og uppsetning er á höndum Heima.“


Komment