Elí Helgi Sigurðsson hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tvær líkamsárásir en dómur þess efnis var birtur fyrir stuttu.
Hann var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa á sunnudeginum 1. desember 2024 í Reykjavík, veist með ofbeldi að manni en Elí kastaði glerglasi í andlit hans með þeim afleiðingum að glasið brotnaði og maðurinn hlaut skurð á kjálka.
Hann var einnig ákærður fyrir að hafa á morgni laugardagsins 4. maí 2024, veist með ofbeldi að karlmanni í svefnherbergi hans, þar sem hann lá í rúmi sínu, en Elí sló fórnarlambið ítrekað, meðal annars með hörðu sljóu áhaldi í andlit, háls og fætur, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut yfirborðsáverka á augnloki og augnsvæði, á nefi, á vör og í munnholi, blóðnasir, og opið sár á tá.
Elí Helgi játaði að hafa kastað glasinu en neitaði fyrir að hafa ráðist á hinn manninn með kylfu. Dómarinn taldi þó slíkt hafa verið sannað. „Samkvæmt heildstæðu mati á öllum gögnum málsins er fram komin sönnun í málinu, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru,“ segir meðal annars í dómnum.
Samkvæmt dómnum hefur Elí verið dæmdur ítrekað áður fyrir ofbeldi síðan 2007, nú síðast í febrúar á þessu ári.
Elí Helgi var dæmdur í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Þá þarf hann að borga manninum sem hann réðst á með kylfu 500.000 krónur með vöxtum.

Komment