
Eldar Ástþórsson hefur verið ráðinn markaðs- og samskiptastjóri Faxaflóahafna en þetta kemur fram í tilkynningu frá höfninni.
Eldar kemur til Faxaflóahafna frá CCP þar sem hann starfaði að kynningar- og markaðsmálum í yfir áratug samkvæmt tilkynningunni.
Hann hefur auk þess leitt markaðs- og kynningarstörf hjá Iceland Airwaves, nýsköpunarfyrirtækinu Gogoyoko og Forlaginu. Eldar er með diplómu í samskiptum og stafrænni miðlun frá Academia í Gautaborg og meistaragráðu í viðskiptastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.
„Hafnir eru drifkraftur mannlífs, menningar og viðskipta – og ég hlakka til að taka þátt í þeim áskorunum sem eru framundan hjá Faxaflóahöfnum. Ný farþegamiðstöð á Skarfabakka opnar í vor nýja gátt erlendra ferðamanna að höfuðborginni með tilheyrandi tækifærum fyrir íslenska ferðaþjónustu. Áhersla Faxaflóahafna á nýsköpun, skilvirkni og áframhaldandi rafvæðingu hafna verður í aðalhlutverki við sköpun nýrra viðskiptatækifæra og við að mæta áfram fjölbreyttum þörfum samfélagsins, umhvefisins og atvinnulífsins,“ segir Eldar Ástþórsson í fréttatilkynningunni.
Komment