
Hótfyndinn hönnuður býður nú upp á fálkaorðuna fyrir „hinn almenna Íslending“, á sölusíðunni redbubble.com.
Forseti Íslands sæmir íslenska ríkisborgara fálkaorðuna tvisvar á ári og að auki nokkra erlenda ríkisborgara ár hvert. Orðuna hljóta þeir einstaklingar sem þykja hafa eflt hag og heiður Íslands. Nú getur hins vegar hver sem er hlotið orðuna, að minnsta kosti í einhverri mynd.
Hönnuðurinn, sem notar notendanafnið glatkistan, býður upp á ýmsar vörur á síðunni sem verða í sumum tilfellum að teljast afar ósmekklegar en nýjustu vörurnar eru hinar ýmsu hannanir þar sem fálkaorðan er í aðalhlutverki. Þar má meðal annars fá límmiða, boli, símahulstur, klukkur, púða og bolla, sem á það sameiginlegt að innihalda fálkaorðuna.
Í texta frá hönnuðinum segir:
„Hinn almenni Íslendingur á svo sannarlega skilið að fá Fálkaorðu en eins og alltaf verður hann að borga fyrir! Tryggðu þér þína eigin fálkaorðu í dag.“

Komment