
Formenn helstu fagfélaga heilbrigðisstétta kalla eftir tafarlausum og faglegum aðgerðum vegna alvarlegs ástands á Landspítala, sem þeir segja vera í kerfishruni. Í sameiginlegu ákalli sem birt var í dag leggja þau þunga áherslu á að stjórnvöld bregðist nú þegar við niðurstöðum nýrrar skýrslu Ríkisendurskoðunar.
„Það er ekki hægt að skrifa sig út úr þessu lengur,“ segir í yfirlýsingunni, þar sem fjallað er um alvarlegar ásakanir á stjórnsýslu, fjármögnun og manneklu í heilbrigðiskerfinu.
Formenn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Sjúkraliðafélags Íslands, Læknafélags Íslands og Ljósmæðrafélags Íslands segja að þeir hafi árum saman varað við þróun mála innan spítalans, en nú liggi staðfesting á vandanum fyrir í opinberri skýrslu.
Krefjast tímasettrar aðgerðaáætlunar
Í ákallinu eru settar fram þrjár meginkröfur:
Að raunhæf og tímasett aðgerðaáætlun verði kynnt eigi síðar en 15. september 2025.
Að mönnunarmál verði sett í forgang.
Að heilbrigðisstofnanir fái fjármagn og heimildir til að manna störf út frá faglegum forsendum og þörfum skjólstæðinga.
Þá hafna formennirnir alfarið að ábyrgðin á kerfishruninu verði enn á ný færð yfir á heilbrigðisstarfsfólkið sjálft. „Nú þarf pólitíska forystu. Og hana þarf að sýna í verki,“ segja þau að lokum.
Yfirlýsinguna undirrita Helga Rósa Másdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, og Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands.
Komment