
Dóttir mannsins sem lést í Garðabænum síðustu helgi er sögð hafa beitt foreldra sína ofbeldi og taka tvö vitni undir slíkt í ítarlegu viðtali við Heimildina sem birtist í morgun.
Samkvæmt Vísi fékk maðurinn hjartaáfall og er rannsakað hvort dóttir hans hafi átt þátt í andláti hans. Ekki liggur þó fyrir staðfest dánarorsök.
Maðurinn mun hafa verið fluttur á Landspítalann á föstudaginn þar sem hann lést síðar. Dóttir hans var handtekin og situr nú í einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði en hún er 28 ára gömul.
Hestamaður, sem vildi ekki koma fram undir nafni, segist hafa komið að dótturinni að kýla föður sinn á bæ út á landi eftir að hafa heyrt öskur. Þetta hafi gerst fyrir einu og hálfu ári en dóttirin hélt hross á bænum. Faðirinn hafi hniprað sig saman en ekki varið sig öðruvísi en að snúa sér undan höggunum. Hestamaðurinn segist hafa hlaupið til að aðstoða en þegar hann mætti á svæðið hafi móðirin vera komin á milli. Í kjölfarið hafi dóttirin kýlt móður sína með sama hætti.
„Þetta er hávaxin og sterk kona,“ segir hestamaðurinn við Heimildina „Henni var mjög brugðið þegar hún sá mig.“
Maðurinn segist hafa ráðfært sig við lögreglumann og í kjölfarið hafi verið reynt að tryggja öryggi fólksins á bænum meðan þau voru þar. Hann segir einnig að móðirin hafi verið með oft verið með áverka á líkama sínum sem hún hafi reynt að fela „Maður er bara miður sín,“ segir hann um fréttir af andláti föðurins.
Komment