
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri eldvirkni, jarðskjálfta og jarðhniks á Veðurstofu Íslands segir að ekki sé forsendur til þess að uppfæra hættumatskort af Reykjanesskaga, nema eitthvað breytist.

Hættumatskortið gildir að óbreyttu til 15. júlí og það gerir ráð fyrir þó nokkurri hættu á jarðskjálftum og jarðfalli ofan í sprungur, einnig sprunguhreyfingum í og í kringum Grindavík.

Hættumatskortið gerir ráð fyrir nokkurri hættu á gosopnun; hraunflæði sem og gjósku á sama svæði ásamt mikilli eða nokkurri gasmengun.
Þá er staða eldstöðvanna á Reykjanesi og við Svartsengi þannig að gert er ráð fyrir aukinni virkni, sem er fyrsta stig af þremur fram að eldgosi eða þá yfirvofandi eldgosi:

„Á meðan þetta ferli er í gangi með kvikusöfnun á svipuðum hraða, bakgrunnsskjálftavirkni og engum meiriháttar breytingum, þá höldum við þessu svona,“ segir Kristín í samtali við mbl.is og bætir því við að áframhaldandi landris sé í Svartsengi og á mjög svipuðum hraða og síðustu vikurnar og þar sé greinilega kvikusöfnun í gangi.
Kristín segir að horft sé til þeirrar tímalínu að mögulegur atburður verði í haust pg það þurfi áfram að fylgjast vel með framvindunni:

„Við erum ekki farin að sjá þessa þróun ennþá“ segir hún og nefnir að á „hverjum degi erum við með sjálfvirka útreikninga og líkankeyrslur til að reikna rúmmál kvikunnar“ sem sé að safnast þarna fyrir, og þegar „við sjáum að þessir rúmmálsreikningar eru komnir að neðri óvissumörkum þá verður uppfærsla hjá okkur og ástæða til að breyta hættumati,“ segir Kristín sem segir sérfræðinga fylgjast með Mýrdalsjökli og Kötlu, en Katla er eldstöðin sem hulin er Mýrdalsjökli.
Segir Kristín að í fyrra hafi orðið stórt hlaup sem búið er að vera í umræðunni í kringum niðurstöður frá Eyjólfi Magnússyni hjá jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og að hugsanlega sé einhver vatnssöfnun í gangi og verið sé að fylgjast með því sem og ánum sem jökullinn hefur áhrif á. Þá sé fylgst með jarðskorpuhreyfingum á svæðinu.
Einnig segir Kristín að fylgst sé með Grjótárvatni og svæðinu í kringum Ljósufjallakerfið því þar skelfi jörð áfram en ekkert landris er hafið þótt sérfræðingum finnist líklegt að þar sé kvikusöfnun á miklu dýpi. Þá heldur kvikusöfnun áfram í Öskju með landrisi, sem hófst árið 2021. Segir Kristín mjög mikið hafa dregið úr því en síðasta árið hafi verið um tíu sentímetra hækkun og alls hafi land risið um ríflega áttatíu sentímetra frá 2021:
„Þarna er þennsla og kvikusöfnun í gangi með bakgrunnsskjálftavirkni en það er ekkert annað sem bendir til að það sé eitthvað alveg að fara að bresta á. Þetta getur gengið í dálítinn tíma án þess að það dragi til tíðinda.“
Komment