
Skáldsagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson er á meðal þeirra verka sem best er að grípa til til að kalla fram sanna jólastemningu, samkvæmt breska dagblaðinu Daily Mail. Þar skipar Gunnar sess með nokkrum af stærstu nöfnum bókmenntasögunnar. Austurfrétt fjallaði um málið.
Í umfjöllun Daily Mail er Aðventa lýst sem stuttri en áhrifaríkri íslenskri frásögn sem fjallar um seiglu og samkennd á aðventutímanum. Ritstíll Gunnars er sagður draga skýrt fram bæði hörku íslensks vetrar og helgi hátíðanna.
Sagan fjallar um Fjalla-Bensa sem leggur upp í fjallaferð á aðventunni í leit að eftirlegukindum, ásamt forustusauði, hundi sínum og nægum kaffibirgðum.
Fyrir jólin var þess einnig minnst að öld var liðin frá því að fyrirmynd persónunnar, Benedikt Sigurjónsson vinnumaður í Mývatnssveit, fór í slíka leit, ferð sem reyndist afar erfið þar sem aftakaveður skall á.
Aðventa kom fyrst út árið 1936 og er eitt útbreiddasta verk Gunnars, sem fæddur var í Fljótsdal. Bókin hefur verið þýdd á meira en tuttugu tungumál. Ný ensk þýðing leit dagsins ljós fyrir síðustu jól og vakti talsverða athygli, meðal annars með sýnilegri framsetningu í gluggum stórra bókabúða í Lundúnum.
Á lista Daily Mail er Gunnar í góðum félagsskap. Þar má einnig finna verk á borð við Jólaleyfi Poirots eftir Agöthu Christie og Jóladraum Charles Dickens.
Áhugi á Aðventu fer vaxandi víða um heim. Í mörgum menningarstofnunum í Þýskalandi og á Ítalíu hefur skapast hefð fyrir því að lesa söguna á aðventunni, líkt og gert er árlega á Skriðuklaustri.
Í smábæ skammt frá Torino á Ítalíu nýtti listahópur söguna sem grunn að dagskrá sem flutt var fyrir jól. Slíkir viðburðir eru árleg hefð hjá hópnum og var meginþemað í ár friður. Tónlistaratriði voru flutt og á milli þeirra var sagan sögð í aðlagaðri mynd. Í samtali við staðarblaðið Piazza Pinerolese sagði leiðtogi hópsins að frásögnin af smalanum og manngæsku hans hefði fallið vel að boðskapnum.

Komment