
Fasteignafélagið Þak ehf., í eigu Arnars Más Jóhannessonar og Trausta Ágústssonar, hefur keypt einbýlishúsið að Laufásvegi 7 í Reykjavík fyrir 445 milljónir króna. Frá kaupunum sagði Viðskiptablaðið.
Sigríður Harðardóttir og Páll V. Bjarnason arkitekt, sem seldu húsið, eignuðust það árið 1989 og komu því þá í upprunalegt horf.
Húsið er 453 fermetrar og telur samtals 14 herbergi. Eignin skiptist í fjórar hæðir: tvær aðalhæðir, 150 fermetra íbúð á jarðhæð með sérinngangi og ris með tveimur kvistum og 75 fermetra gólffleti. Fasteignamat hússins er 217 milljónir króna.
Um er að ræða steinhús úr íslensku grágrýti, reist árið 1918, og hefur það talsverða sögu. Einar Benediktsson skáld bjó þar um tíma ásamt fjölskyldu sinni. Þegar eignin var auglýst í Morgunblaðinu í fyrra, fyrir 520 milljónir króna, var saga hennar rakin ítarlega. Síðar var verðið lækkað í 490 milljónir.
Kaupendurnir, Arnar Már og Trausti, reka Tryggingar og ráðgjöf ehf., stærstu vátryggingamiðlun landsins. Þeir tóku yfir Þak fasteignafélag á fyrri hluta ársins; áður var félagið í eigu GG Verks. Þak fasteignafélag á m.a. skrifstofuhúsnæði á þriðju og fjórðu hæð Borgartúns 30.

Komment