
Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti til þjónustu við Nesprestakall í Reykjavík. Valnefnd hefur valið séra Jón Ómar Gunnarsson sóknarprest í Breiðholtsprestakalli í starfið en greint er frá þessu á vef Þjóðkirkju Íslands.
Jón Ómar er fæddur í Reykjavík þann 15. september árið 1982 og ólst upp í Bandaríkjunum og Breiðholtinu.
Jón Ómar var vígður til prestsþjónustu fyrir KFUM og KFUK og Kristilegu skólahreyfinguna þann 5. október árið 2008. Hann var í námsleyfi hjá Luther Seminary í St. Paul, Minnesota 2013-2014 og lauk M.th. gráðu þaðan árið 2017.
Jón Ómar þjónaði sem prestur við Glerárkirkju árin 2014-2017, og hefur verið prestur og sóknarprestur í Breiðholtsprestakalli frá 2017-2025.
Sérstaklega er tekið fram að Jón Ómar sé mikill KR-ingur en Nesprestakall er einmitt í Vesturbænum og býr Jón Ómar þar.
Þá hefur séra Gunnbjörg Óladóttir verið ráðin sem héraðsprestur í Suðurprófastsdæmi og séra Sigurður Jónsson ráðinn sem sóknarprestur í Laugardalsprestakalli.
Komment