
Einar Steingrímsson lætur dómsmálaráðherra finna til tevatnsins í nýrri Facebook-færslu.
Stærðfræðingurinn og samfélagsrýnirinn Einar Steingrímsson skýtur þéttingsfast á dómsmálaráðherra og ríkisstjórnina í nýlegri færslu á Facebook. Við færsluna birtir hann skjáskot af frétt þar sem fram kemur að dómsmálaráðherrann, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir ætli sér ekki að tjá sig um mál hins 17 ára Oscars Anders Bocanegra Florez frá Kólumbíu en Útlendingastofnun hyggst vísa honum frá landi í mánuðinum, þrátt fyrir að faðir hans hafi afsalað sér forræði yfir honum eftir að hafa beitt hann ofbeldi. Oscar er með íslenska fósturforeldra.
Mikill þrýstingur hefur verið á yfirvöld að undanförnu um að beita sér í málinu en fjölmargir prestar Þjóðkirkjunnar skrifuðu undir áskorun um að Oscari yrði leyft að búa hér á landi.
Einar segir það rétt hjá ráðherra að tjá sig ekki um málið en segir ennfremur að ef það væri „ögn af manngæsku“ í ríkisstjórninni myndi Þorbjörg Sigríður lýsa yfir því að mannúð yrði framvegis látin ráða för í þessum málaflokki.
„Rétt hjá ráðherra að tjá sig ekki um mál í þessari stöðu. En ef það væri ögn af manngæsku í þessari ríkisstjórn, ef grimmd gegn varnarlausum börnum er ekki ráðandi í henni, þá MYNDI þessi ráðherra lýsa yfir að nú yrði tekið harkalega á þeirri mannvonsku og grimmd sem hefur einkennt þetta kerfi, og framvegis myndi mannúð ráða för.“
Komment