
Lögreglan hefur hert viðbúnað og aukið sýnilega viðveru sína í miðborg Reykjavíkur vegna ljósahátíðar gyðinga sem hefst í kvöld og stendur til 22. desember. Þetta staðfesta bæði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkislögreglustjóra, samkvæmt frétt RÚV.
Fólk í miðborginni hefur tekið eftir auknum fjölda lögreglubíla og þar á meðal að minnsta kosti einum bíl frá sérsveit ríkislögreglustjóra. Að sögn Ásmundar Rúnars Gylfasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, er viðbúnaðurinn ákveðinn í samráði lögregluembætta og tengist fyrst og fremst hátíðinni sjálfri og mikilli umferð fólks í miðbænum á þessum tíma.
Hann undirstrikar jafnframt að aukinn viðbúnaður sé ekki í beinum tengslum við hryðjuverkaárásina sem framin var í Sydney fyrr í dag og beindist að gyðingum. Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, staðfestir einnig að sérsveit sé á svæðinu, en tekur undir að um sé að ræða varúðarráðstafanir.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafa engar hótanir borist í tengslum við ljósahátíðina. Bent er á að sambærileg löggæsla sé oft viðhöfð við stórar hátíðir og viðburði, svo sem Hinsegin daga eða mótmælagöngur.
Víða erlendis hefur lögregla aukið viðveru sína í kjölfar árásarinnar í Ástralíu, meðal annars í Lundúnum, þó yfirvöld þar ítreki að engar vísbendingar séu um yfirvofandi ógn.

Komment