
Lokað var fyrir athugasemdakerfi á Facebook síðu RÚV í morgun við tvær fréttir sem miðillinn birti í gær og í morgun. Fjallaði sú fyrri um meinta hópnauðgara sem ganga lausir og hin um stöðuna á íslenskum leigubílamarkaði.
Mannlíf hafði samband við RÚV til að spyrjast fyrir um ástæðu þess að lokað var fyrir athugasemdirnar.
„Við lokuðum á athugasemdir við þessar fréttir þar sem nokkrar athugasemdir gengu of langt,“ sagði Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri RÚV, um málið. „Það voru hótanir um ofbeldi, dráp og geldingar. Við lokum stundum fyrir athugasemdir þegar við birtum fréttir um eldfim eða viðkvæm mál enda getum við ekki haft stöðugt eftirlit með athugasemdakerfinu allan sólarhringinn.“
Þá sagði Heiðar að það væri ákvörðun vaktstjóranna hvort lokað sé fyrir athugasemdir eða ekki.
Mannlíf fór yfir athugasemdirnar sem lokað hefur verið fyrir og er greinilegt að einhverjum athugasemdum hefur verið eytt. Orðbragð í mörgum þeirra er nokkuð sterkt en athygli vekur að þeir sem notast við sterkustu orðin koma ekki fram undir réttu nafni.
Hér fyrir neðan má sjá dæmi af athugasemdum

Komment