Engum föngum hefur verið sleppt fyrir slysni úr íslenskum fangelsum en þetta kemur fram í svari Þórdísar Valsdóttur, upplýsingafulltrúa dómsmálaráðuneytisins, við fyrirspurn Mannlífs um málið en umræða um slíkt í Bretlandi hefur verið hávær í breskum fjölmiðlum undanfarna mánuði.
Tölur sýna að 262 fangar hafi verið látnir lausir fyrir mistök frá mars 2024 til mars 2025. Þá var Hadush Kebatu, hælisleitanda frá Eþíópíu sem hafði verið dæmdur fyrir kynferðislega árás á unglingsstúlku og konu, látinn laus fyrir mistök í október. Hann var handtekinn aftur eftir 48 klukkustunda leit.
Fyrr í nóvember kom í ljós að Billy Smith, 35 ára, og annar fangi, hinn 24 ára gamli Alsírbúi Brahim Kaddour Cherif, hefðu verið látnir lausir fyrir mistök. Smith gaf sig fram í Wandsworth-fangelsinu í Lundúnum þremur dögum eftir að honum var ranglega sleppt.
„Ef fanga væri sleppt án þess að hafa lokið vist sinni myndi hann verða boðaður aftur til að ljúka afplánun sinni. Líkt og áður segir eru ekki dæmi um slíkt hérlendis en ef slíkt yrði raunin væri lögreglu falið að finna viðkomandi og koma honum í fangelsi,“ sagði Þórdís einnig.


Komment