
Mótmælendur á vegum Félagsins Ísland-Palestína fóru inn í húsnæði sem hýsir bæði Landsbankann og utanríkisráðuneytið og blésu í lúðra og hrópuðu slagorð til stuðnings Palestínu.

Skyndimótmæli voru boðuð klukkan 15:00 í dag fyrir utan utanríkisráðuneytið en hátt í 90 manns svöruðu kallinu. Tilefni mótmælanna eru þau meðal annars að þrýsta á utanríkisráðuneytið að söngkonan og aðgerðarsinninn Magga Stína verði frelsuð úr fangelsi Ísraela en hún, ásamt öðrum áhafnarmeðlimum Frelsisflotaskipsins Conscience, voru handtekin af Ísraelsher á alþjóðahafsvæði nærri Gaza-strönd. Þangað var skipið komið til að flytja hjálpargögn til Palestínumanna. Eftir að mótmælin höfðu staðið yfir í dágóðan tíma fyrir utan ráðuneytið, hófu mótmælendur að ganga í kringum húsnæðið. Að lokum fóru þeir inn að baka til. Eftir talsverðan tíma þar færðust mótmælin aftur út.

Lögreglan var lítið sjáanleg á mótmælunum en sást þó halda til í nálægum götum. Hiti er í mótmælendum en mótmælin fara þó friðsamlega fram. „Frjáls, frjáls Palestína, Frjáls, frjáls Magga Stína,“ hrópuðu þeir meðal annars, blésu í lúðra og slógu í trommur. Sjá mátti starfsmenn utanríkisráðuneytisins kíkja annað slagið út um gluggann, ýmist með bros á vör eða skeifu á andlitinu.



Komment