
Um 80 manns mótmæltu opinberri heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á Austurvelli í dag.

Oft hafa verið mun betri mæting á mótmælum Félagsins Ísland-Palestína en einn mótmælandinn sem Mannlíf ræddi við kallaði þetta „sumarfrísmætingu“ og átti þá við að fjölmargir séu ekki á landinu vegna sumarfrís.
Ástæður mótmælanna voru tvenns konar, annars vegar að mótmæla opinberri heimsókn van der Leyen, sem er yfirlýstur stuðningsmaður Ísrael, og hins vegar að mótmæla aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda vegna þjóðarmorðsins á Gaza.

Mótmælendur stóðu fyrir framan grindverk sem lögreglan hafði komið upp fyrir framan Alþingishúsið og kölluðu slagorð á borð við „Hún er ekki velkominn!“ og „Everytime Ursula lies, another child in Gaza dies“.

Annar mótmælandi sem Mannlíf ræddi við hafði á orði að lögregluþjónn hafi beðið í mestu vinsemd um að mótmælendur myndu ekki hafa of hátt, það færi svo illa í eyrun. Ekki var að heyra á mótmælendunum að þeir hafi hlustað á beiðnina.

Komment