
Fimm eru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina, samkvæmt dagbók lögreglunnar. Alls voru 98 mál skráð í kerfinu frá klukkan 17:00 í gær til 05:00 í morgun. Hér koma nokkur dæmi um verkefni tímabilsins.
Lögreglumenn sem voru við skipulagt umferðareftirlit tóku eftir bifreið sem forðaðist eftirlitið. Fóru þeir á eftir ökumanninum, sem var kona, sem hljóp út úr bifreiðinni og faldi sig. Lögreglan þefaði hana uppi en hún reyndist hvorki undir áhrifum áfengis né fíkniefna. Hún sagðist hafa hræðst hið sýnilega eftirlit lögreglu en hún fór sína leið eftir gott samtal við lögreglumennina.
Lögreglan sem annast útköll í Hafnarfirði og í Garðabæ handtók mann fyrir brot gegn lögreglusamþykkt. Maðurinn braut rúðu, hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu og neitaði að segja til nafns. Verður hann vistaður í fangaklefa þar til ástand hans leyfir að við hann sé rætt.
Sama lögreglan handtók konu grunaða um ölvunarakstur eftir að hún ók út af veginum. Önnur kona var handtekin grunuð um það sama en hún náði þó að halda bifreiðinni á veginum.
Lögreglunni sem starfar í Kópavogi og Breiðholti barst tilkynning um þjófnað í kynlífstækjaverslun. Stuttu síðar höfðu lögreglumennirnir upp á þjófnum og bættust þá við kærur vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna sem og akstur sviptur ökurétti.
Lögreglunni á Vínlandsleið barst tilkynning um eld í fjölbýlishúsi. Þar hafði líklega kviknað í út frá eldamennsku. Var einn fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Komment