
Gífurlegur hagnaður var hjá útgerðarfélaginu Brimi á þriðja ársfjórðungi en félagið hagnaðist um 4,1 milljarð króna en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
„Afkoma þriðja fjórðungs er góð og eru það tveir þættir sem skipta mestu máli. Veiðar og vinnsla á makríl gengu vel og verð á sjávarafurðum er hátt um þessar mundir. Þegar við horfum til seinustu 12 mánaða er ávöxtun eigin fjár 12%.
Í september var tilkynnt um kauptilboð félagsins í allt hlutafé Lýsis hf. Með kaupunum sér Brim mikil samlegðar- og sóknarfæri bæði tengt hráefnaöflun Lýsis og fyrir Brim til að ná lengra í virðiskeðju sjávarafurða.
Ákveðin óvissa er nú í rekstri Brims þar sem stjórnendur félagsins vita ekki hver veiðigjöld verða á næsta ári, né heldur hver úthlutun aflakvóta í deilistofnum uppsjávartegunda verður. Þegar fyrir liggur hver veiðigjöldin verða á hverja fisktegund á næsta ári mun Brim tjá sig um möglegar afleiðingar fyrir félagið og þá um viðbrögð félagsins ef efni standa til,“ sagði Guðmundur Kristjánsson, forstjóri félagsins, í tilkynningu um málið en hann er einnig stærsti eigandi fyrirtæksins.
Eignarhlutur hans er 43,96%, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 13,85% og Lífeyrssjóður verzlunarmanna á 10,24%. Gengi Brims hækkaði um 6% við þessa tilkynningu.

Komment