Þrátt fyrir að Ísland taki ekki þátt í Eurovision í ár mun RÚV sýna keppnina en óvíst er hver mun lýsa henni. Þetta kemur fram í svari Evu Georgs. Ásudóttur, dagskrárstjóra RÚV, til Mannlífs.
„RÚV mun sýna frá Eurovision í maí næstkomandi en það hefur hvorki verið tekin ákvörðun um það hver kemur til með að lýsa keppninni né hvernig annarri umgjörð verður háttað,“ sagði Eva í svari sínu en undanfarin tvö ár hafa Gunna Dís og Gunnar Birgisson séð um að lýsa keppninni.
Mannlíf spurði einnig hvort til stæði að halda einhvers konar keppni með öðrum þjóðum sem hafa dregið sig úr keppni.
„RÚV er ekki kunnugt um nein formleg áform meðal þeirra þjóða sem hafa ákveðið að sleppa þátttöku í Eurovision í ár um sameiginlegan viðburð. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort að Söngvakeppnin verði haldin í ár en það verður alla vega ekki í febrúar eins og verið hefur,“ segir Eva.
VÆB tók þátt fyrir hönd Íslands í Eurovision í fyrra og lenti í 25. sæti með lagið Róa.


Komment