
Palestínumenn eru afar þakklátir Margréti Kristínu Blöndal, eða Möggu Stínu, fyrir hugrekki hennar og þátttöku í Frelsisflotanum sem ætlaði að flytja mannúðaraðstoð til Gaza. Þetta kom fram hjá Dr. Varsen Aghabekian, utanríkisráðherra Palestínu, á blaðamannafundi í forsætisráðuneytinu í dag.
„Palestínumenn kunna að meta hvers kyns aðgerðir, frá hvaða stofnun eða einstaklingi sem er, sem stígur fram til að sýna að við erum að reyna að rjúfa umsátrið, kúgunina, hernámið. Og því erum við mjög þakklát fyrir hana, en okkur þykir einnig mjög leitt það sem er að gerast hjá henni. En við vitum að þetta hefur verið mynstrið, og fyrri flotar hafa verið stöðvaðir,“ sagði Aghabekian.
Margrét Kristín, sem einnig er þekkt undir listamannsnafninu Magga Stína, var um borð í bátnum Conscience, sem ísraelski herinn stöðvaði á alþjóðlegu hafsvæði utan við Gaza-ströndina. Markmið leiðangursins var að koma mat, lyfjum og öðrum nauðsynjum til íbúa til hinnar stríðshrjáðu Gaza-strandar.
Aghabekian, sem er í opinberri heimsókn hér á landi að boði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra, sagði mikilvægt að minna á að Ísrael hafi engan rétt til að stöðva slíka frelsisflota á alþjóðlegu hafsvæði. „Aftur og aftur verðum við að segja að Ísrael hafi engan rétt til að stöðva flotana á alþjóðlegu hafsvæði. Þetta er brot á alþjóðalögum,“ sagði hún.
„Ég vona að samlandi ykkar verði látin laus eins fljótt og auðið er, og hún komist heim heil á húfi.,“ bætti ráðherrann við.

Komment