
Deilur um „stolinn“ matarvagn halda áfram en veitingamaðurinn Páll Ágúst Aðalheiðarson tilkynnti í síðustu viku að matarvagni í sinni eigu hefði verið stolið.
Á svipuðum tíma hafði Hafþór Rúnar Sigurðsson, viðskiptafélagi Páls, auglýst matarvagninn til sölu á sölusíðunni Braski og bralli á Facebook, en þeir ráku vagninn saman undir nafninu Pop Up Pizza og keyptu þeir einnig hlut í Flatbökunni saman. Mannlíf ræddi við báða menn í síðustu sem útskýrðu að ágreingurinn snérist um deilur sem hefðu staðið yfir í eitt og hálft ár, án þess að fara út í smáatriði.
Bæði Páll og Hafþór sögðu við Mannlíf að búið væri að leysa málið.
Það er þó ekki rétt ef marka má orð Páls sem hann lét falla seint á föstudagskvöldi á samfélagsmiðlum. Þar setur Páll inn hlekk á frétt Mannlífs um málið og segir:
„Frétt ársins: Hvernig get ég stolið því sem ég á?“
Þá fer hann yfir eignarréttarákvæði í lögum. „Eign einkahlutafélags er ekki þín persónulega eign sem þú ráðstafar og selur í eigin þágu eins og þú vilt. Félagið á vagninn og félagið eiga fleiri enn einn. Hafþór „seldi“ vini sínum vagninum í gegnum einkahlutafélagið Pop up pizza ehf. og hefur ekki borist greiðsla fyrir því. Í kjölfarið fer Hafþór með matarvagninn í felur og hafa réttmætir eigendur eða félagið ekki hugmynd um hvar vagninn er niður kominn,“ segir Páll. Þá þjófkennir hann Hafþór á ný.
„Þjófnaður eða á góðri íslensku, fjárdráttur! Þessi vagn er þýfi!“
Því virðist vera sem deilum Páls og Hafþórs um matarvagninn sé ekki ennþá lokið.
Komment