
Fjölmiðlamaðurinn umdeildi, Piers Morgan greinir frá stöðu sinni á sjúkrahúsi eftir að hafa slasast nýverið. Breski spjallþáttastjórnandinn, sem er sextugur, birti sjálfu af sér liggjandi í sjúkrarúmi á samfélagsmiðlum í gær, sunnudaginn 18. janúar.
Morgan sagði fylgjendum sínum á X að hann hefði „hrasað á litlu þrepi“ á veitingastað hótels í Lundúnum, með þeim afleiðingum að lærleggurinn brotnaði „svo illa að ég þurfti nýja mjöðm“.
Piers segir að hann sé nú að jafna sig á sjúkrahúsi og muni þurfa að nota hækjur í sex vikur. Þá muni hann ekki geta farið í langferðir í flugi næstu tólf vikur.
„Brakandi góð byrjun á árinu!“ skrifaði Morgan og bætti kaldhæðnislega við: „Ég kenni Donald Trump um.“
Á Instagram deildi Morgan jafnframt mynd af röntgenmynd sem sýndi brotið.
Samkvæmt American Academy of Orthopaedic Surgeons krefjast brot á lærlegg oft skurðaðgerðar og getur tekið á bilinu þrjá til sex mánuði að jafna sig að fullu.
Cleveland Clinic bendir á að lærleggsbrot séu alvarleg meiðsli sem krefjist tafarlausrar læknisaðstoðar.
„Lærleggsbrot eru meðhöndluð með skurðaðgerð og sjúkraþjálfun og getur tekið mánuði að ná fullum bata,“ segir stofnunin. Slík meiðsli geti orðið vegna bílslysa, falls eða skotsára, og eldri einstaklingar sem eru útsettir fyrir byltum séu í aukinni áhættu.
Mayo Clinic útskýrir að mjaðmaskipti felist í því að fjarlægja og skipta út skemmdum hlutum mjaðmarliðsins, en íhlutirnir séu „yfirleitt úr málmi, keramik og hörðu plasti“.
Morgan er nú umsjónarmaður netspjallþáttarins Piers Morgan Uncensored. Hann hefur áður stýrt Piers Morgan Live á CNN og gegnt störfum hjá breskum slúður- og fréttablöðum á borð við News of the World og The Sun. Morgan hefur í gegnum árin vakið mikla gagnrýni fyrir ummæli sín, meðal annars um hertogaynjuna Meghan, og svo var hann einnig dómari í America’s Got Talent.

Komment