
Ingi Eðvarðsson, prófessor við Háskóla Íslands, lýsir í færslu á Facebook djúpu þakklæti til starfsfólks Landspítalans eftir þriggja vikna sjúkrahúsdvöl. Hann segir bæði fagmennsku og mannlega hlýju hafa einkennt dvölina og lofar framgöngu lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.
Ingi segir atburðarrásina hafa hafist þegar hann datt illa og var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Þar fór hann í blóðpróf og röntgenmyndatöku áður en hann var fluttur á einkastofu. „Það er aldeilis stjanað við mann hér,“ hugsaði hann í fyrstu, en síðar kom í ljós að hann var í einangrun vegna gruns um smitandi veiru.
„Ég hafði svo sem séð fólk fara í hálfgerða geimbúninga þegar það kom til mín,“ skrifar hann. Eftir að niðurstöður sýndu að hann væri ekki smitaður var hann fluttur á almenna deild.
Ingi tók sérstaklega eftir því hve margir starfsmenn koma frá erlendum löndum, svo sem Taílandi og Austur-Evrópu. „Sjúkrahús eru merkileg fyrirbæri með lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annað starfsfólk. Það kom mér á óvart hve mikið af starfsfólki kom frá Tælandi, Austur Evrópu og víðar. Nær allir skildu íslensku og lögðu sig fram um að tala málið, sumir höfðu náð tökum á málinu, aðrir reyndu sitt best og nær allir skildu íslensku. Þarna er mikill mannauður fyrir heilbrigðiskerfið. Hæfni og kunnátta þeirra var mikil.“
„Læknar og hjúkrunarfræðingar sem önnuðust mig sýndu fagmennsku og færni sem undrun sætir. Mennskan og alúðin var alltaf til staðar,“ segir hann.
Þá þakkar hann eiginkonu sinni, Sesselju, fyrir ómetanlegan stuðning meðan á veikindum stóð. „Kletturinn í hafinu í þessu ferli öllu er hún Sesselja mín sem alltaf var vakin og sofin, bæði á sjúkrahúsinu og þegar heim var komið í gær. Takk elskan mín.“
Hann lýsir einnig góðri eftirfylgni lækna eftir útskrift, þar sem öll mál voru leyst fljótt og af mikilli alúð.
„Takk fyrir mig,“ skrifar hann að lokum. „Það er ómetanlegt að eiga góðan Landspítala háskólasjúkrahús.“
Komment