Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Logi Einarsson, skipaði í gær Rakel Elíasdóttur í embætti framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna til fimm ára frá og með 1. janúar næstkomandi en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
Embætti framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna var auglýst laust til umsóknar þann 28. júní síðastliðinn. Alls bárust 17 umsóknir um starfið.
Rakel Elíasdóttir er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur öðlast málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Samkvæmt tilkynningunni býr Rakel yfir fjölbreyttri reynslu sem nýtist í embættinu og starfaði nú síðast sem deildarstjóri yfir rekstri Bílastæðasjóðs hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Um nokkurra ára skeið var Rakel deildarstjóri innheimtudeildar þáverandi Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þar á undan vann Rakel m.a. sem fulltrúi, lögmaður og lögfræðilegur ráðgjafi á lögmannsstofum, Lyfjastofnun og hjá Gjaldheimtunni.


Komment