Mjög mikill verðmunur er á hinu svokallaða „íþróttanammi“ Latabæjar og öðrum ávöxtum og grænmeti í Bónus en Heimildin greinir frá þessu.
Í grein blaðsins eru tekin nokkur dæmi og eru klementínur merktar Latabæ 70 prósent dýrari en á öðrum stað í búðinni en eplin 36 prósent. Þá eru perur merktar sjónvarpsþáttunum meira en tvöfalt dýrari en venjulegar perur.
Pétur Sigurðsson, verkefnastjóri hjá Bónus, segir í samtali við blaðið að vörurnar í Latabæjarbökkunum hafi verið skolaðar og teljist varan því unnin og sé því dýrari. Þá séu vörurnar í bökkunum í hæsta gæðaflokki.
Latarbæjarnammi kom í búðir Bónuss og Hagkaups í vor og er ætlað að hvetja krakka til að borða meiri ávexti og grænmeti.
„Það vantar vörur sem stuðla að heilbrigðu mataræði barna. Latibær fór í sambærilegt átak fyrir 30 árum sem skilaði sér í 22 prósenta aukningu í grænmetis- og ávaxtaneyslu barna. Við trúum því að með því að bjóða upp á hollar matvörur á áhugaverðan og skemmtilegan hátt velji börn grænmeti og ávexti oftar,“ sagði Magnús Scheving, eigandi Latabæjar og fyrrum Íþróttaálfur, um vöruna í vor.


Komment