Samtökin ‘78, hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi, hlutu sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu fyrir nýyrðasmíð og baráttu samtakanna fyrir tilvistarrétti hinsegin fólks innan tungumálsins.
Þá er Dröfn Vilhjálmsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur og umsjónarmaður Bókasafns Seljaskóla, handhafi verðlauna Jónasar Hallgrímssonar í ár. Verðlaunin hlýtur hún fyrir óeigingjart starf sitt við að auka áhuga barna á íslensku menningarumhverfi og stuðla að auknum lestri þeirra á íslensku.
Rökstuðningurinn varðandi Samtökin ‘78
Frá stofnun Samtakanna ‘78 árið 1978 hefur íslensk tunga skipað miðlægan sess í starfi þeirra. Stór hluti af baráttu þeirra fyrir réttindum hinsegin fólks er krafan um tilverurétt innan tungumálsins enda er íslenska lykillinn að íslensku samfélagi. Sú vinna hefur ekki bara snúist um að berjast gegn útilokun og notkun fordæmandi orða heldur ekki síður um skapandi nýyrðasmíði. Fyrstu mótmælaaðgerðir samtakanna árið 1982 beindust þannig eins og frægt er gegn banni Ríkisútvarpsins á notkun orðanna hommi og lesbía, sem voru þau orð sem félagsfólk hafði sjálft mótað og kosið að nota um sig.
Á síðari árum hafa Samtökin ‘78 staðið fyrir nýyrðasamkeppnum undir yfirskriftinni Hýryrði þar sem almenningur er hvattur til að taka þátt í að búa til ný orð sem vantar í íslenska tungu. Þannig hafa samtökin unnið markvisst að því að til séu orð á íslensku sem lýsa því hver við erum og hvernig okkur líður. Tilvist slíkra orða er forsenda þess að hinsegin fólk sé hluti af íslensku samfélagi og menningu en standi ekki utan þess. Nýyrðin hafa þar að auki mörg komist í almenna notkun og mikilvægi framlags Samtakanna ‘78 til íslenskrar tungu er því ótvírætt.


Komment