Hinn virti sænski blaðamaður og efnahagsskýrandi Andreas Cervenka segir Evrópusambandið hafa lært dýrmæta, en dýra lexíu í samskiptum sínum við Donald Trump: mild og sáttfús nálgun skilar engu þegar forseti Bandaríkjanna á í hlut.
Í pistli í Aftonbladet rifjar Cervenka upp að ESB hafi í sumar undirritað viðskiptasamning við Bandaríkin. Samningurinn fól í sér að tollar á bandarískar vörur sem fluttar eru til Evrópu voru felldir niður, en 15 prósenta tollar lagðir á evrópskar vörur sem fluttar eru vestur um haf. Samningurinn hafi verið gagnrýndur fyrir að Evrópa hafi beygt sig of auðveldlega undir þrýsting Trumps.
„Endurheimt stöðugleika og fyrirsjáanleika“ var yfirskrift fréttatilkynningar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þegar samningurinn var kynntur, skrifar Cervenka.
„Að þessi tvö orð fari saman við Donald Trump eins og olía og vatn hefur nú verið sannað endanlega.“
Á laugardag hafi Trump í raun fellt samninginn úr gildi með því að tilkynna nýja 10 prósenta tolla á átta Evrópuríki, þar á meðal Svíþjóð. Tollarnir eigi að hækka í 25 prósent nema Grænland verði „selt“ til Bandaríkjanna innan tiltekins tíma.
„Eitt er ljóst: mjúka leiðin gagnvart Donald Trump hefur ekki virkað,“ skrifar Cervenka.
Hann bendir á að Kína hafi haft mun meiri árangur í viðskiptadeilu sinni við Bandaríkin með því að hóta að loka fyrir útflutning sjaldgæfra jarðmálma, sem væru lykilhráefni fyrir bandarískan iðnað.
„Sýning valds sem reyndist árangursrík.“
Cervenka varar við því að áframhaldandi undanlátssemi sé hættuleg og gæti leitt til enn frekari krafna.
„Næsti hluti lands sem hann vill „kaupa“ gæti allt eins verið Lófóten, Gotland eða Álandseyjar.“
Að mati Cervenka stendur Evrópa frammi fyrir erfiðu vali. Efnahagsleg tengsl við Bandaríkin séu sterk, en stundum verði að verja grundvallargildi.
„Það eru stundir þegar verja verður frelsi og lýðræði, jafnvel þótt það hafi afleiðingar fyrir eigin buddu. Nú er einmitt slík stund.“
Hann leggur til að fyrsta skrefið verði að Evrópuþingið hafni því að samþykkja viðskiptasamninginn sem gerður var í sumar. Það myndi opna leið fyrir gagnráðstafanir, þar á meðal nýja tolla á Bandaríkin, sem þegar séu í undirbúningi samkvæmt upplýsingum í Financial Times. Þá sé einnig til tilbúinn tollapakki frá síðasta ári sem miði að því að skaða helst þau ríki þar sem stuðningur við Trump er mestur.
Cervenka fjallar einnig um mögulega beitingu öflugra efnahagslegra vopna og bendir á veikleika Bandaríkjanna: ríkisskuldirnar.
„Bandaríkin eru háð lántökum til að halda ríkisrekstrinum gangandi. Skuldirnar nema heilum 38 milljarða dala og vaxa hratt,“ skrifar hann.
Samkvæmt nýjustu tölum eigi fjárfestar í ESB, Bretlandi og Noregi samanlagt yfir þrjá milljarða dala í bandarískum ríkisskuldabréfum. Þótt mest af því sé einkafé, sé vel mögulegt að stjórnvöld beini ríkissjóðum og lífeyrissjóðum til að hætta kaupum eða jafnvel selja slík bréf.
Hann nefnir norska olíusjóðinn sérstaklega sem dæmi
„Hinn öflugi norski olíusjóður á eignir að verðmæti um 19.600 milljarða norskra króna, þar af eru um 1.800 milljarðar bundnir í bandarískum ríkisskuldabréfum.“
Cervenka spyr hvers vegna Norðmenn, sem Trump hótar nú einnig tollum, eigi að halda áfram að fjármagna ríki sem geri tilkall til landsvæðis Norðurlanda.
Slíkar aðgerðir myndu valda skammtímatjóni fyrir Evrópu, viðurkennir hann, en hefðu sterk táknræn gildi
„En þær myndu einnig senda öflug skilaboð til Bandaríkjanna og fjármálamarkaða heimsins: nú er þessu lokið.“
Hann rifjar einnig upp að þegar Trump dró til baka tolla á síðasta ári hafi það gerst skömmu eftir að vextir á bandarískum ríkisskuldabréfum fóru að hækka ógnarhratt.
Í lok pistilsins líkir Cervenka aðferðum Trumps við vinnubrögð mafíuforingja.
„Aðferðir Donald Trump hafa oft verið líkt við aðferðir mafíubossa. „Tilboð“ hans til Danmerkur um að selja Grænland er skýrt dæmi um það.“
Hann bendir á að slíkir leiðtogar óttist persónulega niðurlægingu og stingur upp á því, með kaldhæðni, að Evrópa gæti svarað í sömu mynt.
„ESB gæti boðist til að „kaupa“ golfvellina hans fyrir núll evrur, með vísan til þjóðaröryggishagsmuna, og um leið hótað refsiaðgerðum gegn fyrirtækjum hans ef samningur næðist ekki fyrir ákveðinn tíma.“
Slíkt væri róttækt, brot á hefðum og veruleg stigaukning
„Með öðrum orðum: tungumál sem Donald Trump kann betur en flestir.“
Cervenka lýkur pistlinum með orðalagi sem hann eignar forsetanum sjálfum:
„Við getum gert þetta á auðvelda mátann, eða þann erfiða.“


Komment