
Gunnar Smári Egilsson lætur Morgunblaðið finna til tevatnsins í nýlegri Facebook-færslu.
Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson segir á Facebook að Morgunblaðið sé eins og málgagn þess í neðra. Við færsluna hlekkjar hann frétt miðilsins um undirskriftarlista fjölmargra presta Þjóðkirkjunnar, til stuðnings Oscars Andres Florez Bocanegra, 17 ára pilts frá Kólumbíu, sem Útlendingastofnun vill vísa frá landinu. Færsla Gunnars Smára hefst á eftirfarandi hátt:
„Morgunblaðið vill vera blað hinna kristnu en getur aldrei tekið afstöðu í anda Krists. Og er því eins og málgagn þess í neðra, sem ætíð tekur afstöðu með hinum ríku og valdamiklu en aldrei með þeim sem eru ofsóttir, kúgaðir eða forsmáðir.“
Gunnar Smári kallar blaðamenn Morgunblaðsins „púka“ sem „væli“ yfir því að prestar standi með unglingsdreng í neyð.
„Hér væla púkarnir yfir að prestar standi með unglingspilti sem þarf á hjálp að halda. Mogginn á ekkert tár fyrir þann dreng en grætur með ekkasogum yfir hvað fólk er eitthvað leiðinlegt við kvótagreifana.“
Að lokum skýtur Sósíalistaforinginn fast á Moggann:
„Kristið fólk getur haft það sem leiðsögn í lífinu að spyrja hvað Jesús myndi gera, og breyta eftir því. Eða spyrja: Hvað vill Mogginn? og breyta þveröfugt.“
Komment