
Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson segir að í lokuðu spjallsvæði Samfylkingarinnar á Facebook, hafi fólk verið beðið um að verja ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra um að segja stöðu skólameistara Borgarholtsskóla lausa og að níða skóinn af skólameistaranum.
Stefán byrjaði í færslu sinni á að hneykslast á Eyjólfi Ármannssyni, innviðaráðherra sem viðurkenndi í gær að hafa ekki lesið í skýrslu um jarðgangagerð áður en hann tók ákvörðun um forgangsröðun jarðgangna í nýrri samgönguáætlun.
„Ókey, þetta er bara glatað. Ráðherra stígur fram og kynnir ákvörðun með því að vísa í skýrslu. Svo kemur í ljós að hann vísar ekki rétt í skýrsluna. Og endar loks á að þurfa að viðurkenna að hann hafi ekki einu sinni lesið hana - og þá kemur þetta: „Við lesum skýrsluna og metum hana en hún tekur ekki ákvörðunina fyrir okkur“. “
Í seinni hluta færslunnar kastar Stefán sprengju en hann fullyrðir að í lokuðu spjallsvæði Samfylkingarinnar hafi fólk verið hvatt til þess að níða skóinn af Ársæli Guðmundssyni, skólameistara Borgarholtsskóla, „til að bjarga andliti ráðherrans.“
„Sorrý krakkar, en þetta er bara glatað. Og það er næstum eins glatað að horfa uppá að lokaða spjallsvæðið hjá Samfylkingunni er eina ferðina enn búið að gefa út þá skipun að mæta á Facebook og verja ruglið hjá FF - eins og í morgun þegar dagskipunin var að níða skóinn af skólameistaranum í Borgó til að bjarga andliti ráðherrans og aðstoðarmannsins - fyrrum varaformanns Samfó. Ömurlegt!“

Komment