
Skyndimótmæli verða haldin við utanríkisráðuneytið að morgni mánudags, klukkan 09:00, að Reynistræti 8 í Reykjavík. Aðgerðahópar og almenningur eru hvattir til að mæta og krefjast tafarlausra aðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda vegna ástandsins á Gaza.
Í yfirlýsingu skipuleggjenda mótmælanna, félagsins Ísland-Palestína, segir að hungursneyð, loftárásir og landhernaður Ísraelshers ógni lífi þúsunda barna og að samkvæmt Sameinuðu þjóðunum gætu allt að 14.000 börn dáið úr hungri á næstu dögum. Þar segir að verið sé að fremja þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu.
Skipuleggjendur beina ákalli til einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja, trúfélaga og stjórnmálaflokka að beita sér fyrir auknum þrýstingi á ríkisstjórnina og bandalagsríki Íslands til að grípa til tafarlausra þvingunaraðgerða gegn Ísrael.
Þar á meðal er kallað eftir viðskiptaþvingunum, stuðningi við ákæru Suður-Afríku fyrir Alþjóðadómstólnum og að Ísrael verði útilokað frá alþjóðlegu íþrótta- og menningarsamstarfi.
Að sögn skipuleggjenda hefur tími málamiðlana og diplómatískra bréfaskrifta runnið sitt skeið. Mótmælin eru haldin undir slagorðunum: Gaza gefst ekki upp – við gefumst ekki upp! Frjáls Palestína!
Komment