
Niðurstaða árlegrar jólakönnunar ELKO liggur nú fyrir og er ljóst að jólagjöf ársins 2025 er ísvélin Ninja Creami, sem hlaut afgerandi kosningu með 24% atkvæða. Hún tekur þar með við keflinu af snjallsímum, sem trónuðu á toppi listans tvö ár í röð.
Tæplega 4.000 manns tóku þátt í könnuninni, sem send var á póstlista ELKO. Markmið hennar er að kanna væntingar, óskir og hefðir landsmanna í aðdraganda jólanna.
„Á eftir ísvélinni koma símar, heyrnartól og snjallúr,“ segir Arinbjörn Hauksson, forstöðumaður markaðssviðs ELKO. „Og svo komast LED andlitsgrímur á topp tuttugu listann í ár, en þar er um að ræða ljósameðferð sem á að stuðla að betri húð, draga úr hrukkum og jafnvel vinna á bólum.“
Þrátt fyrir að loftsteikingarpottur sé til á um 56% heimila er hann enn á óskalista margra, en 21% svarenda sögðu annaðhvort að þeir væru að óska sér slíks pottar eða að tími væri kominn á nýjan. Þá hefur LEGO, sem nýverið bættist í vöruúrval ELKO, slegið í gegn og er í 9. sæti yfir vinsælustu jólagjafirnar. Um 60% þátttakenda segjast ætla að gefa að minnsta kosti eina LEGO-gjöf í ár.
Könnunin leiddi einnig í ljós að 42% hefja jólagjafainnkaupin í nóvember, líklega vegna afsláttardaga, en 12% kaupa gjafir allt árið. Um 70% setja upp gervitré, 20% lifandi tré, og aðeins 7% sleppa jólatrénu alfarið.
Þá kom fram að Home Alone er áfram vinsælasta jólamynd Íslendinga með 26% atkvæða. The Holiday kemur þar á eftir með 15% og Christmas Vacation með 13%. Die Hard situr í fimmta sæti listans og Hringadróttinssögurnar eru einnig á meðal tíu vinsælustu jólamynda.
Að lokum var opin styrktarúthlutun tengd við könnunina, þar sem þátttakendur gátu tilnefnt málefni sem þeim þykir hjartfólgið. Að þessu sinni hlýtur Ljósið styrk úr styrktarsjóði ELKO að upphæð ein milljón króna.

Komment