
Tónleikar með tónlist Þorvaldar Gylfasonar við ljóð Kristjáns Hreinssonar fara fram í Hörpu sunnudaginn 11. janúar næstkomandi klukkan 16:00. Á efnisskránni eru 15 sönglög í söngvaflokki sem ber heitið Söngvar um svífandi fugla.
Flytjendur á tónleikunum eru Hildigunnur Einarsdóttir messósópran, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari. Söngvaflokkurinn er í útsetningu Þóris Baldurssonar. Þorvaldur Gylfason mun flytja stuttar skýringar milli atriða.
Ljóðum Kristjáns Hreinssonar verða jafnframt varpað myndskreytt á skjá bak við sviðið meðan á flutningi stendur. Tónleikarnir verða kvikmyndaðir fyrir sjónvarp, líkt og gert var árið 2014 þegar verkið var frumflutt í Salnum af Kristni Sigmundssyni, Bryndísi Höllu Gylfadóttur og Jónasi Ingimundarsyni. Þá verða nótnabækur á boðstólnum í hléi.
Í tilefni viðburðarins orti Kristján Hreinsson stutt erindi:
„Í byrjun árs ég alsæll finn
að enginn getur kvartað
ef tíminn sýnir tilgang sinn
með tónlist fyrir hjartað.“

Komment