
Almannatengillinn og fyrrverandi fjölmiðlakonan Karen Kjartansdóttir gagnrýnir harðlega þær raddir sem réttlæta handtöku aðgerðarsinna sem reyndu að koma mannúðaraðstoð til Gaza, þar á meðal söngkonan Magga Stína. Í færslu sem hún birti á Facebook í morgun spyr hún hvort fólk sé tilbúið að horfa fram hjá alþjóðalögum þegar þau eru brotin af ríkisvaldi.
„Til fólksins sem ég sé tjá sig þennan morguninn um að eðlilegt sé að ræna óbreyttum borgurum fyrir að reyna að koma mat og lyfjum til sveltandi fólks því mögulega hafi það brotið lög (sem það gerði ekki),“ skrifar Karen í upphafi færslunnar og beinir næstu orðum að því fólki.
„Ef við segjum að það sé í lagi að handtaka fólk á flotillu af því það brýtur lög, þá verðum við líka að horfa á lögbrotin sem flotillan er að bregðast við,“ skrifar hún og bendir á að Alþjóðadómstóllinn hafi kveðið á um að Ísrael verði að tryggja óhindraðan aðgang mannúðaraðstoðar til Gaza.
Karen segir að lokun og hafnbann Ísraels á Gazasvæðið brjóti gegn alþjóðalögum og hafi verið skilgreint sem ólögmæt sameiginleg refsing gegn íbúum. Hún telur einnig upp fjölda annarra laga- og sáttmálabrota sem Ísrael sé sakað um:
„Brot á Genfarsamningunum með því að flytja eigin borgara inn á hernumin svæði og með loftárásum sem brjóta gegn hlutfallsreglu og skyldu til að aðgreina hernaðarleg skotmörk frá óbreyttum borgurum. Brot á alþjóðalögum með því að beita refsiaðgerðum gegn borgurum með lokun og skorti á mat, vatni, lyfjum og eldsneyti. Brot á hafrétti með hafnbanni sem stangast á við frelsi siglinga og miðar í raun að því að svelta almenning. Brot á mannréttindasáttmálum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Barnasáttmálanum, með því að skerða rétt til lífs, heilbrigðis og menntunar.“
Hún bendir einnig á að Ísrael hafi hundsað fjölda ályktana Sameinuðu þjóðanna sem fordæma hernám og landtöku, auk dóma Alþjóðadómstólsins frá 2004, 2024 og bráðabirgðaúrskurða frá 2024–2025 þar sem kveðið sé á um að aðskilnaðarmúrinn og hernámið séu ólögmæt.
Að lokum beinir Karen spurningum til þeirra sem telja að aðgerðasinnar Frelsisflotans hafi brotið lög:
„Hvað finnst þér um þessi lögbrot? Er virkilega eðlilegt að kalla það lögbrot þegar borgarar reyna að koma mat og lyfjum til sveltandi fólks, en ekki þegar ríki brýtur svona kerfisbundið gegn alþjóðalögum?“
Komment