Rík tengsl eru milli Morgunblaðsins, sem er stærsta fréttaritstjórn landsins, og Sjálfstæðisflokksins. Dæmi eru um að blaðamenn sem fjalla um stjórnmál séu um leið fyrrverandi eða núverandi virkir meðlimir í flokknum.
Útgáfufélag Morgunblaðsins rekur um leið einu dagblaðaprentsmiðju og -dreifingu á Íslandi.
Siðfræðingur sem Mannlíf ræddi við segir að blaðið sé „einhvers konar upplýsingaveita lobbýista og lögmanna tiltekinna viðskiptamanna.“ Hann segir ekki ríkja fullt gagnsæi um hagmsunagæslu blaðsins.
Mannlíf hafði samband við nokkra blaðamenn blaðsins og ritstjóra þess til að spyrja þá um tengsl þeirra við Sjálfstæðisflokkinn og þann hagsmunaárekstur sem skapast í vinnu þeirra vegna tengslanna.
Pólitísk deila um sjálfstæði fjölmiðla
Frá því ný ríkisstjórn tók við í lok síðasta árs hefur skapast mikil umræða um fjölmiðla í landinu og þá sérstaklega Morgunblaðið, bæði úti í samfélaginu og inn á Alþingi. Sú umræða hefur að einhverju leyti snúist um tengsl blaðsins við Sjálfstæðisflokkinn.
Sumir stuðningmenn og þingmenn Flokks fólksins telja blaðið vera að vinna í þágu í auðmanna og gegn almannahagsmunum í landinu og hafa rætt slíkt á opinberum vettvangi.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, gagnrýndi fjölmiðilinn harkalega í ræðu sinni á aðalfundi Flokks fólksins sem haldinn var í febrúar á þessu ári.
„Málgagn auðmanna landsins hefur hamast á okkur með útúrsnúningum og hálfsannleik. Flokkurinn hefur verið sakaður um þjófnað og óheiðarleika og vísvitandi blekkingar. Sjálfstæðisflokkurinn og þrír aðrir flokkar sem voru mislengi að átta sig á skráningarmálum sínum hafa aftur á móti látnir í friði af málgagninu,“ sagði Inga og vísaði þar í umfjöllun Morgunblaðsins um styrkjamálið svokallaða.
Fyrr í sama mánuði sagði Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, að endurskoða ætti ríkisstyrki til blaðsins í kjölfar þess hvernig blaðið hefur fjallað um stjórnmálaflokkinn.
„Þetta er ekki gæfulegt fyrir blað sem einhvern tímann var blað allra landsmanna en er það greinilega ekki núna heldur einungis blað fámennrar klíku auðmanna,“ sagði Sigurjón í viðtali hjá Útvarpi Sögu. „Það er líka kominn tími til þess að endurskoða einfaldlega fjárframlög til Morgunblaðsins tel ég vera vegna þess að við erum að láta þarna gríðarlegar upphæðir inn í blað sem er í rauninni að reka erindi gegn almannahagsmunum og fyrir hagsmunum örfárra auðmanna,“ hélt hann áfram.
Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, er að miklum meirihluta í eigu sjávarútvegsfyrirtækja. Það var í upphafi keypt af hagsmunaaðilunum í því skyni að hafa áhrif á skoðanir almennings í helstu baráttumálum þeirra, en þau liggja saman við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hvernig það gerðist er skýrt hér síðar.
Inga Sæland tengdi sömuleiðis saman Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið í svari sínu til Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi eftir að Hildur spurði Ingu út í styrkjamálið.
„Ég þakka hjartanlega hæstvirtum ráðherra fyrir fyrirspurnina sem lyktar af hrútspungafýlunni sem flæðir úr Hádegismóum. Þær eru alveg með ólíkindum dylgjurnar sem hér eru settar fram. Það er með hreinum ólíkindum að þurfa að sitja undir svona dylgjunum sem eru algerlega úr lausu lofti gripnar,“ sagði Inga á Alþingi þann 20. febrúar en höfuðstöðvar Morgunblaðsins eru húsa í Hádegismóum í Árbænum.
Formaðurinn verður ritstjóri
Tengsl Morgunblaðsins við Sjálfstæðisflokkinn eru augljós öllum sem hafa fylgst með stjórnmálum á Íslandi á 20. og 21. öldinni. Þar ræður Davíð Oddsson, annar ritstjóri blaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ríkjum. Hann var formaður flokksins frá 1991 til 2005 og tók við, ásamt Haraldi Johannessen, ritstjórn blaðsins árið 2009 eftir stutt stopp í Seðlabanka Íslands, þar sem hann hafði verið pólitískt ráðinn seðlabankastjóri í aðdraganda bankahrunsins. Davíð hefur verið í Sjálfstæðisflokknum nær alla sína ævi og hefur verið einn valdamesti maður hans síðan hann varð borgarstjóri Reykjavíkur árið 1982.
Inni á Alþingi í dag er einn þingmaður flokksins sem hefur unnið sem blaðamaður á Morgunblaðinu en það er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi ráðherra. Sigurbjörn Magnússon, faðir Áslaugar, er stjórnarformaður Árvakurs en félagið á og gefur út Morgunblaðið.
Sigurjón Þórðarson vakti einmitt athygli á þessum tengslum í ræðu sem hann hélt á Alþingi í síðustu viku og var í kjölfarið atyrtur af Bryndísi Haraldsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem sagði: „Mér finnst þetta bara ekki háttvirtum þingmanni sæmandi.“
Í borgarstjórn situr Kjartan Magnússon fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins en hann var blaðamaður í tæpan áratug á Morgunblaðinu á tíunda áratug síðustu aldar.
Hin fjögur fræknu
Þá hafa þeir fjórir blaðamenn sem skrifa hve mest um íslensk stjórnmál fyrir fjölmiðilinn líka ýmsar beinar tengingar við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir blaðamenn eru Hermann Nökkvi Gunnarsson, Andrea Sigurðardóttir, Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson.
Hermann hefur starfað sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu síðan vorið 2023 en samkvæmt heimasíðu Samtaka ungra Sjálfstæðismanna er Hermann framkvæmdastjóri félagsins og hefur hann starfað sem kosningastjóri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ. Hermann komst sjálfur í fréttirnar á þessu ári fyrir að ráðast á annan flokksmann í miðbæ Reykjavíkur vegna deilu um formannskosningarnar í Sjálfstæðisflokknum
Hermann vildi ekki tjá sig við Mannlíf um tengingar sínar við Sjálfstæðisflokkinn þegar eftir því var leitað.
Andrea starfaði um skeið sem fréttaritstjóri viðskiptaritstjórnar Morgunblaðsins en færði sig fyrir nokkrum mánuðum þaðan yfir í almennari fréttaskrif en hefur skrifað mikið um stjórnmál á þeim tíma. Hún var, þar til í janúar samkvæmt heimildum Mannlífs, formaður Hvatar en það er félag Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík. Þá hefur hún samkvæmt heimasíðu flokksins gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn um árabil, meðal annars sem formaður utanríkismálanefndar.
Andrea vildi ekki tjá sig við Mannlíf um tengingar sínar við Sjálfstæðisflokkinn þegar eftir því var leitað.
Andrés starfar sem ritstjórnarfulltrúi blaðsins í dag en hann hefur starfað við blaðamennsku áratugum saman á hinum og þessum miðlum. Tengsl hans við Sjálfstæðisflokkinn eru að einhverju leyti óopinber en hann hefur starfað bakvið tjöldin í kosningabaráttum flokksins í gegnum árin á sama tíma og hann hefur starfað sem blaðamaður eða pistlahöfundur. Þá er Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi flokksins og fyrrverandi blaðamaður Morgunblaðsins, bróðir Andrésar.
Andrés hefur einnig verið áberandi sem stjórnandi Facebook-hópsins Fjölmiðlarnördar en þar hefur hann verið sakaður um ritskoða umræðu sem snýst um tengsl flokksins við Morgunblaðið.
Andrés vildi ekki tjá sig við Mannlíf um tengingar sínar við Sjálfstæðisflokkinn þegar eftir því var leitað.
Stefán Einar Stefánsson hefur starfað hjá Morgunblaðinu síðan árið 2015. Hann hefur verið í Sjálfstæðisflokknum í mörg ár og sat meðal annars í stjórn SUS. Rætt var um þann möguleika hjá einhverjum stuðningsmönnum flokksins að Stefán Einar tæki við sem formaður Sjálfstæðisflokksins þegar Bjarni Benediktsson, fyrrverandi formaður flokksins, tilkynnti að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. Sjálfur hefur Stefán Einar sagt að hann útiloki ekki að bjóða sig fram til formanns flokksins …


Komment