
Hlutabréf Sýnar féllu til mikilla muna í morgun eftir að fyrirtækið gaf út afkomuviðvörun í gærkvöldi. Verðið lækkaði um tæp 20 prósent.
Samkvæmt Herdísi Dröfn Fjeldsted, forstjóra Sýnar, var boðað til starfsmannafundar í morgun þar sem kynntar voru hagræðingaraðgerðir, þar á meðal uppsagnir. Hún segir nokkrum starfsmönnum hafa verið sagt upp í flestum deildum fyrirtækisins, en vildi ekki gefa upp nákvæman fjölda. Uppsagnirnar eru þó ekki taldar margar og ekki um hópuppsagnir að ræða. RÚV sagði frá málinu.
Auk þess hefur verið ákveðið að ráða ekki í þær stöður sem nú eða bráðlega losna.
Afkomuviðvörunin, sem birt var í Kauphöllinni í gærkvöldi, bendir til að tekjur Sýnar af stökum sjónvarpsáskriftum séu mun lægri en áætlað var. Þetta er meðal annars rakið til bráðabirgðaákvörðunar Fjarskiptastofu, sem kvað á um að Sýn yrði að leyfa dreifingu á íþróttarásum sínum í gegnum kerfi Símans.
Komment